Jóhann fékk ekki að spila þegar Burnley féll

Sindri Sverrisson skrifar
Micky van de Ven skoraði sigurmark Tottenham með afar laglegum hætti.
Micky van de Ven skoraði sigurmark Tottenham með afar laglegum hætti. Getty/David Horton

Jóhann Berg Guðmundsson og félagar í Burnley eru fallnir niður úr ensku úrvalsdeildinni, eftir eins árs dvöl, en þetta varð endanlega ljóst þegar liðið tapaði gegn Tottenham í dag, 2-1, í næstsíðustu umferð.

Útlitði var reyndar bjart hjá Burnley þegar liðið komst yfir á 25. mínútu, eftir magnaðan sprett Norðmannsins Sander Berge sem kom boltanum á hinn danska Jacob Bruun Larsen, sem skoraði.

Tottenham var hins vegar ekki lengi að jafna og það gerði Pedro Porro með þrumuskoti hægra megin úr teignum, eftir að hafa fengið að fara óáreittur langan spöl.

Burnley-menn vissu að þeim dygði ekkert nema sigur til að eiga enn möguleika á að halda sér uppi, og þeir urðu áhættusæknari eftir því sem leið á leikinn.

Það opnaði möguleika fyrir Tottenham og á 82. mínútu skoraði varnarmaðurinn Micky van de Ven ansi snoturt mark sem að lokum reyndist sigurmark leiksins.

Jóhann Berg var á varamannabekk Burnley og fékk ekkert að koma við sögu í leiknum, og óvíst er hvað tekur við hjá þessum 33 ára gamla landsliðsfyrirliða eftir tímabilið.

Burnley er með 24 stig í 19. og næstneðsta sæti, fimm stigum á eftir Nottingham Forest sem er í 17. sætinu og á auk þess leik til góða við Chelsea í dag, fyrir lokaumferðina sem fram fer næstu helgi.

Sigurinn styrkir stöðu Tottenham í 5. sætinu en liðið er með 63 stig og á tvo leiki eftir. Liðið er fjórum stigum á eftir Aston Villa og á því enn veika von um að komast upp í 4. sæti og í Meistaradeild Evrópu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira